Fréttir

Almenningur skuldar ekki erlend lán

Áhugaverð frétt birtist í Morgunblaðinu þann 11. nóvember síðastliðinn um fund á vegum Orators, félags laganema við HÍ. Á þeim fundi var rætt um gengistryggð lán og hugsanlegt ólögmæti þeirra. Sérstaklega þótti mér áhugavert mat Eyvindar G. Gunnarssonar, lektors við lagadeild HÍ, um ólögmæti gengistryggingar á grundvelli laga um vexti og verðtryggingu.

Ástæðan er sú að Eyvindur var starfsmaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið og hann ætti því að vera sá maður sem einna best veit hver tilgangur frumvarpsins átti að vera.

Nokkuð hefur verið fjallað um lögmæti gengistryggingar lána undanfarið og hefur þar fremstur í flokki farið Björn Þorri Viktorsson hrl. sem meðal annars hefur hafið málarekstur vegna þeirra. Allt þetta er af hinu góða en mér hefur fundist vanta meiri dýpt í umræðuna og að ekki hafi verið farið nægjanlega vel yfir þau lög sem á málinu taka, a.m.k. ekki í hinni opinberu umræðu. Nær eingöngu hefur verið vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu í því samhengi og mun ég því ekki fara sérstaklega yfir ákvæði þeirra laga í umfjöllun minni. Þó er rétt að geta að lögin gegna lykilhlutverki í þessu sambandi því þau banna að skuldbindingar í íslenskum krónum séu uppreiknaðar miðað við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.

Í ýmsum lögum er fjallað um erlend lán, gengistryggingu, gjaldmiðla oþh. og ef þau eru lesin í samhengi fær undirritaður ekki betur séð en að lán í erlendri mynt og gengistrygging skuldabréfalána sé óheimil ef um viðskipti á milli innlendra aðila er að ræða.

Íslenska krónan er eini lögmæti gjaldmiðill landsins

Í fyrsta lagi má nefna lög nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands. Í fyrstu grein þeirra laga segir skýrlega: „Gjaldmiðill Íslands nefnist króna, er skiptist í hundrað aura.“ Í athugasemdum með frumvarpinu segir hreinlega um þessa grein: „Grein þessi þarfnast eigi skýringa“. Samkvæmt framangreindu er krónan hin íslenska eini lögmæti gjalmiðillinn á Íslandi og því verður ekki séð hvernig innlendir aðilar hafi almennt heimild til að gera viðskiptasamninga sín á milli í öðrum gjaldmiðli en í íslenskum krónum.

Innlend lán vs. erlend lán

Sé framangreind tilvitnun í lög um gjaldmiðil Íslands skoðuð í samhengi við lög um gjaldeyrismál nr. 87/1992 skýrist myndin enn frekar. Í 1. grein gjaldeyrislaga er fjallað um það hverjir séu innlendir aðilar, hverjir séu erlendir aðilar þegar kemur að gjaldeyrismálum, hvað sé innlendur og erlendur gjaldeyrir, skilgreining á gjaldeyrisviðskiptum, fjármagnshreyfingum ofl. Lögin og reglugerðir tengdar þeim fjalla svo um meginreglur um gjaldeyrisviðskipti, fjármagnsflutninga milli landa ofl., hvaða viðskipti séu háð takmörkunum og hvaða viðskipti séu það ekki. Í athugasemdum um einstakar greinar frumvarpsins sem síðar varð að lögum segir m.a. um 1. greinina: „Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í…….Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Íþeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent“ (feitletrun greinahöfundar). Minn skilningur á framangreindu er eftirfarandi: Þau lán sem lánastofnanir hér á landi hafa lánað íslenskum aðilum og einstaklingum eru ekki erlend lán heldur innlend og engin gjaldeyrisviðskipti á grundvelli laga um gjaldeyrismál eiga sér í reynd stað vegna þeirra. Þegar veitt er lán eða greitt er af láni í meintri erlendri mynt og greiðslan á sér stað í íslenskum krónum þá er ekki farið á markaðinn og erlendum gjaldeyri skipt til að greiða út lánið eða borga af láninu, einungis er um að ræða uppreikning miðað við gengi íslensku krónunnar á greiðslu- eða afborgunardegi. Gjaldeyrisviðskipti eiga sér hins vegar stað þegar lánastofnunin tekur lán eða greiðir af sínu láni til hins erlenda aðila eða þegar lánastofnunin skiptir erlendu láni sínu yfir í íslenskar krónur.

Samkvæmt lögum um gjaldeyrismál skuldum við ekki erlend lán eins og lánastofnanir hafa haldið fram. Hin meintu erlendu lán og þau gengistryggðu geta samkvæmt framansögðu því ekki verið annað en skuldbindingar í íslenskum krónum ef viðskiptin eiga sér stað milli tveggja innlendra aðila. Gengistrygging slíkra lána er óheimil á grundvelli laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og fram kom hér í upphafi.

Skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er alltaf í íslenskum krónum

Þegar ég var að læra til endurskoðunar var mér snemma gert það ljóst að ekki er hægt að semja sig frá sköttum. Enn fyrr á lífsleiðinni lærði ég það að 2X3 væri það sama og 3X2. Sama hlýtur að gilda með hin gengistryggðu lán eða lán í erlendri mynt. Menn semja sig ekki frá lögunum með þeim hætti að snúa hlutunum við og setja fram í skuldabréfi skuld í erlendri mynt, borga lánið út í íslenskum krónum, halda því fram að skuldin sé í erlendri mynt og reikna svo út skuldina miðað við gengi íslensku krónunnar á hverjum tíma. Útkoman er nákvæmlega sú sama og ef um er að ræða skuldabréf í íslenskri mynt með gengistrygginu við erlenda gjaldmiðla. Nánast undantekingalaust hefur veiting lána í erlendri mynt eða lána með gengistryggingu, til almennings og fyrirtækja á Íslandi, verið veitt til viðskipta þar sem undirliggjandi verðmæti eru í íslenskum krónum og greiðsla til lántaka verið í íslenskum krónum þrátt fyrir hin gengistryggðu ákvæði eða hreinlega erlend lánsfjárhæð tilgreind í texta skuldabréfsins. Þá er mönnum gert og/eða heimilt að greiða lánið til baka í íslenskum krónum. Skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er því alltaf í íslenskum krónum, ef útgreiðsla lánsins var í íslenskum krónum og lánveitandinn er innlendur aðili, hvernig sem á málið er litið enda er íslenska krónan eini lögmæti gjaldmiðill landsins.

Lög um samningsveð

Ég hvet alla þá sem lánastofnun heldur að kröfu í erlendri mynt að skoða veðbækur eigna sinna. Í 4.gr. laga um samningsveð er kveðið á um það að tilgreina verði í veðskjalinu sjálfu hámarks fjárhæð sem veðtryggð er (tilgreiningarregla). Þá er jafnframt í 4. greininni heimilt að tilgreina veð í erlendum myntum og sérstökum reiknieiningum. Í umfjöllun um greinina getur undirritaður samt ekki skilið hana öðruvísi en svo að sú heimild verði að byggja á skilgreiningum annarra laga hverjar séu lögmætar myntir í þessu sambandi. Heimilt er að gengis- eða vísitölubinda fjárhæðir enda komi grunntala og tegund verðtrygginar fram í bréfinu sjálfu. Þeir hefðbundnu gengistryggðu lánasamningar sem ég hef séð, bera ekki með sér framangreinda gengis- eða vísitölubindingu enda hefur þeim verið þinglýst með þeim hætti að fram kemur í veðbókarvottorði fjárhæð í íslenskri mynt án vísitölutengingar. Það hlítur að vera hámarks fjárhæðin sem viðkomandi lánastofnun getur krafið á grundvelli veðréttarins. Með öðrum orðum: 10.000.000 IKR er þinglýst á eign vegna gengstryggðs skuldabréfs eða láns í erlendri mynt. Lánastofnun, miðað við fall krónunnar, krefur lántaka um 25.000.000 IKR. Undirritaður getur ekki séð að lánastofnunin geti krafið skuldara um meira en 10.000.000 IKR. á grundvelli veðréttarins þar sem tilgreiningarregla veðlaganna segir að hin þinglýsta fjárhæð sé hámarksfjárhæð sem hægt er að krefja á grundvelli veðréttarins. Annað væri ósanngjarnt og óskýrt til dæmis gagnvart síðari veðhöfum sem hagsmuni hafa að gæta.

Önnur lög og sjónarmið

Önnur sjónarmið og lög geta komið upp varðandi lán í erlendum myntum og gengistryggingu lána. Má þar nefna lög um gjaldþrotaskipti og víxillög.

Gengisuppreikningsákvæði eru í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti þegar reikna á upp skuldir í erlendum myntum í íslenskar krónur við gjaldþrot. Í fljótu bragði mætti ætla að þar væri kominn rökstuðningur fyrir heimild til almennrar gengistryggingar skulda þar sem ekki er að finna nein takmörk á þeim skuldum í erlendri mynt sem heimilt er að uppreikna. Undirritaður er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hafa til staðar slík ákvæði í lögunum enda er algengt að erlendir lánardrottnar innlendra aðila eigi hagsmuni að gæta þegar gjaldþrot verður þar sem erfitt er að sjá að gjaldþrotaskipti geti farið fram í annarri mynt en íslenskum krónum. Því verði að vera skýr ákvæði um hvernig umreikna eigi slíkar skuldir í íslenskar krónur þrátt fyrir að ekki sé að finna sérstakar takmarkanir á þeim skuldum. Sú takmörkun hlýtur að koma fram í öðrum lögum svo sem lögum um gjaldeyrismál, lögum um vexti og verðbætur ofl.

Sambærileg gengisuppreikningsákvæði er að finna í lögum nr. 93/1933 um víxla. Víxlar voru upphaflega greiðsluskjöl sem notuð voru í viðskiptum milli landa með mismunandi mynt og því nauðsynlegt að hafa slík uppreikningsákvæði í lögunum. Orðið víxill er dregið af myntbreytingu af þessu tagi þó svo að síðar hafi notkunarsvið víxla víkkað. Sama má segja um víxillögin að miðað við upphaflegan tilgang víxla hljóti gengisuppreikningsákvæði laganna að eiga við um víxilskuldir við erlenda aðila en ekki milli tveggja innlendra aðila.

Varla er því hægt að beita fyrir sig þessum lögum og horfa fram hjá skýrum ákvæðum annarra laga þegar meta á hvort heimildir séu til staðar til að lána í erlendri mynt eða gengistryggja lán milli innlendra aðila.

Forsendubrestur samningalaga vegna hrunsins og óskýrir samningsskilmálar í skuldabréfunum sjálfum hafa verið nefnd sem atriði sem skoða verður í þessu sambandi. Umfjöllun um þau atriði eru efni í heila grein og verða því ekki gerð að umtalsefni hér.

Niðurlag

Það er sannfæring mín eftir að hafa kynnt mér eftir bestu getu þau lög sem fjalla um erlend lán, lán í erlendri mynt, gengistryggð lán og gengisuppreikning að þau hefðbundu lán í erlendri mynt sem innlendir aðilar hafa tekið, standist ekki lög. Gildir hér einu hvort sem um er að ræða lán hjá fjármögnunarleigufyrirtækjum, bílalán, húsnæðislán eða önnur lán hvernig svo sem samningsskilmálar þeirra hafa verið. Þegar innlendur aðili veitir öðrum innlendum aðila lán þá getur það lán aldrei verið annað en skuldbinding í íslenskum krónum og gengistrygging því óheimil.

Það vakti athygli mína að lesa um það að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefði sagt á fundi með Hagsmunasamtökum heimilana þann 17. september síðasliðinn að það yrði talsvert áfall kæmust dómstólar að þeirri niðurstöðu að lán íslensku bankanna í erlendri mynt væru ólögleg. Ég spyr áfall fyrir hvern? Ég hugsa að þeir tugþúsundir einstaklinga sem ginntir voru til að taka lán með gengistryggingu og stór hluti íslenskra fyrirtækja sem í góðri trú um stöðugt efnahagsástand tóku gengistryggð lán séu ekki sama sinnis. Það er þó gott að vita til þess að á sama fundi upplýsti Ráðherra að bankarnir ættu þó að komast yfir slíkt áfall, meðal annars með þeim fjármunum sem lagðir hafa verið á afskriftarreikninga. Hver sá dómari sem hugsanlega kann að komast að því að gengistrygging sé ólögmæt þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að setja hér allt í uppnám vegna þeirrar niðurstöðu sinnar.

Lög eiga að höfða til skynsemi og réttlætis. Þeir einstaklingar og fyrirtæki sem ég þekki til og tóku gengistryggð lán gerðu það í þeim tilgangi að lágmarka greiðslubyrði og fjármagnskostnað. Þrátt fyrir að einhver gengisáhætta fylgdi slíkum lánum, sem menn töldu þá að væru lögleg, var skynsamleg ákvörðun að taka slík lán. Sér í lagi þegar ráðamenn þjóðarinnar, eftirlitsstofnanir, Seðlabanki og lánastofnanir nar sjálfar komu hver á eftir öðrum og töldu mönnum trú um að hér væri allt í sóma, stöðugur og sterkur efnahagur. Annað kom á daginn og það efnahagsumhverfi sem menn töldu sig vera að byggja samninga sína á stóðst ekki. Verði gengstrygging ekki dæmd ólögleg verður niðurstaðan sú að þeir sem töldu sig vera að taka ábyrgar og skynsamlegar ákvarðanir sitja uppi með margfaldaða skuldabyrði og glórulausa eignaupptöku sem slíkri margföldun skulda fylgir. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig dómstólar taka á þessum málum.

Höfundur:Gunnlaugur Kristinsson - löggiltur endurskoðandi

Sjá umræðu á eyjan.is


Svæði

Samvirkni Ehf.

Hafnarstræti 97 / 600 Akureyri
Sími 460 5200 / Símbréf 460 5201
Samvirkni@samvirkni.is

Skráning á póstlista